Gásir

Gásir við Eyjafjörð

Flýtilyklar

Miðaldadagar á Gásum

Fréttir

Vel heppnaðir MIÐALDADAGAR Á GÁSUM

miðvikudagur 20.júl.11 09:17
Það voru 1800 gestir sem lögðu leið sína á Miðaldadaga á Gásum í Eyjafirði 16-19. Júlí. Þar var margt að sjá sem gladdi bæði augu og eyru um leið og þeir upplifðu miðaldir um stund.  Ljúfir tónar ómuðu um kaupstaðinn og handverksfólk óf, vattarsaumaði og skar út í tré  svo eitthvað sé nefnt um leið og matarilmur  kitlaði bragðlauka. Hlátrasköll barna og fullorðna blönduðust sverðaglamri og háreysti bardagamannanna sem áttust við. Tvisvar var tekin kolagröf, kveikt í og hún opnuð við mikla eftirvæntingu Gásverja sem og gesta.  Í bæði skiptin tókst vel til og afraksturinn voru tveir vænir sekkir af kolum sem eldsmiðirnir á staðnum nýttu til þess að gera hnífa, nagla, hringnælur og fleira. Brennisteinshreinsunin gekk eins og best verður á kosið og brennisteinninn hefði á sínum tíma selst í tunnu þá bræddur fyrir 90 fiska. Langskipið Vésteinn frá Þingeyri var á Gásum á laugardeginum og sigldi með gesti sem réru af kappi um fjörðinn. 
Kaupmennirnir löðuðu að sér marga viðskiptavini og bæði vörur og peningar skiptu um eigendur. Þó vafasöm viðskipti hafi átt sér stað í kaupstaðnum þá una allir vel við sitt. Veðrið lék við Gásverja því sólin kyssti bæði andlit og skalla auk þess sem þokubakkar sem á stundum lituðu himinn gráan báru ekki í sér rigningu.  Þetta var í fjórða skiptið sem Miðaldadagar á Gásum eru haldnir á Gáseyrinni en mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að þeir voru haldnir fyrst árið 2003. Þá unnu einungis þrjár handverkskonur í tóftum hins forna kaupstaðar í 3 tíma og fornleifafræðingar voru við störf og sögðu gestum og gangandi frá því sem þeir gerðu.  Í ár tóku hátt í 100 Gásverjar, sem allir voru íklæddir miðaldaklæðum, þátt. Það voru Eyfirðingar sem mynduðu stærsta hópinn en auk þeirra kom handverksfólk og bardagmenn frá  Akranesi, Hafnarfirði, Reykjavík, Dýrafirði og kaupmaður frá Danmörku.  Vert er að benda áhugasömum á því að taka frá þriðju helgina í júlí á næsta ári því þá verður hægt að upplifa miðaldir á ný á Gásum í Eyjafirði.

Til baka


Gásakaupstaður ses

er sjálfseignarstofnun stofnuð af Akureyrarbæ, Hörgársveit, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi, Svalbarðsstrandahreppi, Minjasafninu á Akureyri, Handraðanum - miðaldahóp og Gásafélaginu. 

Mynd augnabliksins

_MG_9911.jpg

Póstlistar


...

Innskráning

moya - Útgáfa 1.10 RC1 2006 - Stefna ehf

Deildarval

  • islenska
  • english

Framsetning efnis